Sérskilmálar fyrir Heimavörn
1 Sérskilmálar fyrir Heimavörn – Gildir frá og með 01.12.2025
1.1 Almennt
(a) Sérskilmálar þessir gilda um alla áskriftarsamninga sem gerðir eru við Securitas um þjónustuleiðir Heimavarna. Almennir skilmálar skulu víkja frá ákvæðum þessara sérskilmála ef þeir reynast ósamrýmanlegir.
(b) Sérskilmálar þessir, ásamt almennum viðskiptaskilmálum Securitas, tilboði félagsins um þjónustu og gildandi verðskrá mynda saman heildarsamning milli Securitas og viðskiptavinar um viðkomandi þjónustu.
1.2 Gildistími, binding og lok samninga
(a) Samningur Securitas og viðskiptavinar um Heimavörn telst kominn á þegar viðskiptavinur hefur samþykkt sérskilmála þessa með því að skrá sig í áskrift. Viðskiptavinur skal kynna sér sérskilmála þessa vandlega áður en hann samþykkir þá. Sá aðili sem kaupir og skráir sig fyrir þjónustunni er viðskiptavinur Securitas og telst hann rétthafi þjónustunnar.
(b) Samningar sem falla undir sérskilmála þessa eru ótímabundnir með 12 mánaða binditíma.
(c) Uppsagnarfrestur að loknum binditíma er einn mánuður. Uppsögn skal berast Securitas með sannarlegum hætti fyrir lok mánaðar og tekur hún gildi frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir að hún er móttekin.
1.3 Skyldur við lok samningssambands
(a) Við lok samningssambands, samkvæmt grein 2.2 eða 3. ber viðskiptavini skylda að skila leigðum búnaði, ásamt merkingum, til Securitas að undanskildum þeim búnaði sem viðskiptavinur hefur fest kaup á.
(b) Ef viðskiptavinur skilar ekki leigðum búnaði, ásamt merkingum, til Securitas er Securitas heimilt að gefa út mánaðarlegan reikning á hendur viðskiptavini fyrir afnot af búnaði og merkingum samkvæmt gildandi verðskrá Securitas hverju sinni þar til búnaði og merkingum hefur verið skilað til Securitas.
1.4 Aðvörunarboð, neyðarboð og útköll
(a) Þjónustuleið Heimavörn Létt og Heimavörn Snjöll
(i) Stjórnstöð Securitas tekur á móti aðvörunar- og neyðarboðum frá reykskynjurum og vatnsnemum og kallar til og sendir öryggisvörð á útkallsstað án gjalds innan á þjónustusvæðum Securitas.
(ii) Stjórnstöð Securitas tekur á móti aðvörunar- og neyðarboðum frá innbrotaskynjurum1 og kallar til og sendir öryggisvörð á útkallsstað ef viðskiptavinur óskar eftir útkalli eða afturköllun hafi ekki verið staðfest. Ef kerfið fer í gang án þess að raunverulegt neyðartilvik eigi sér stað („falsviðvörun“), ber viðskiptavini að afturkalla aðvörunar- og neyðarboð innan tveggja mínútna frá því að kerfið fór í gang. Hafi afturköllun ekki borist innan tilskilins tíma hefur Securitas heimild til að rukka viðskiptavin fyrir útkall öryggisvarðar samkvæmt gildandi gjaldskrá, enda telst um falsútkall að ræða. Sama gildir ef viðskiptavinur veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar við afturköllun.
(iii) Í öllum tilvikum hefur Securitas samband við viðskiptavin/tengiliði í gegnum smáforrit og/eða með símtali, þar sem viðskiptavinur getur óskað eftir útkalli eða afturkallað útkall.
1) Hreyfiskynjarar og hurðarskynjarar
(b) Þjónustuleið Heimavörn Premium
(i) Stjórnstöð Securitas tekur á móti aðvörunar- og neyðaboðum frá öryggiskerfi og kallar til og sendir öryggisvörð á útkallsstað án gjalds á þjónustusvæðum Securitas
(ii) Í öllum tilvikum hefur Securitas samband við viðskiptavin/tengiliði í gegnum smáforrit og/eða símtali, þar sem viðskiptavinur getur óskað eftir útkalli eða afturkallað útkall
1.5 Forfallagjald
(a) Ef viðskiptavinur hefur bókað tíma vegna uppsetningar, viðhalds, úttektar eða annarrar þjónustu Securitas, og afbókar ekki með að minnsta kosti 24 klukkustunda fyrirvara, áskilur Securitas sér rétt til að innheimta forfallagjald samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma.
(b) Sama gildir ef starfsmaður Securitas mætir á stað samkvæmt samkomulagi, en getur ekki hafið verk eða veitt þjónustu af ástæðum sem rekja má til viðskiptavinar. Forfallagjald er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af ónýttum tíma Securitas.
1.6 Annað
(a) Að öðru leyti en kveðið er á um í sérskilmálum þessum fer um réttindi og skyldur aðila samkvæmt almennum viðskiptaskilmálum Securitas hverju sinni. Almenna skilmála Securitas finna má á https://www.securitas.is/almennir-skilmalar/.
Upplýsingar og fyrirvarar við tilboðið
Uppsetning á öryggiskerfi er áætluð að taka allt að þrjár klukkustundir fyrir Heimavörn Létt, fjórar klukkustundir fyrir Heimavörn Snjöll og allt að átta klukkustundum fyrir Heimavörn Premium . Ef uppsetning tekur lengri tíma vegna aðstæðna á vettvangi, sérstaklega vegna sérstakra krafna eða ófyrirséðra erfiðleika hjá viðskiptavini, áskilur Securitas sér rétt til að innheimta gjald vegna aukatíma samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.
Viðskiptavinur ber ábyrgð á að útvega aðgengi, vinnuaðstöðu og aðrar nauðsynlegar forsendur til þess að uppsetning geti farið fram á tilsettum tíma. Tafir sem rekja má til skorts á aðgengi eða aðstæðna hjá viðskiptavini kunna einnig að leiða til aukakostnaðar.
Almenn vinna tæknifólks og búnaður í tilboði þessu eru hvort tveggja áætluð og verða reikningsfærð samkvæmt rauntíma og magni. Tilboð miðast við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar frá þjónustukaupa og að verkefni sé unnið í dagvinnu. Ekki er gert ráð fyrir vinnu við að taka niður eldra kerfi nema það sé sérstaklega tekið fram.
Vinna við uppsetningu á búnaði sem staðsetja þarf ofar en í þriggja metra hæð, lagning strengja fyrir búnað, slitrótt vinna, verkfæra- og seðilgjald verður reikningsfært sérstaklega samkvæmt gildandi gjaldskrá, ásamt leigu á vinnulyftu og öðru því sem þarf til uppsetningar.
Akstur, ferðir, ferðatími og uppihald er reikningsfært samkvæmt gildandi gjaldskrá. Komi til þess skal verkkaupi sjá um að útvega gistingu og fæði/uppihald, allt efni og öll vinna sem fer í uppsetningu er gjaldfærð samkvæmt rauntíma. Verkkaupi leggur til vinnuaðstöðu og efnisgeymslu.
Innihaldi tilboðið sérpöntun á vöru er ekki hægt að afturkalla kaup hennar eða fá hana endurgreidda eftir að tilboð hefur verið samþykkt. Vörur eru afhentar viðskiptavinum um leið og þær eru tilbúnar til afgreiðslu af lager Securitas. Vörur tilboðsins eru reikningsfærðar við afhendingu, óháð vinnulið.
Öll verð miðast við staðgreiðslu. Tollgengi, opinber gjöld og aðflutningsgjöld miðast við dagsetningu tilboðsins.